Það var rjómabliða þegar The Puffin Run fór fram á laugardaginn. Þetta var í áttunda sinn sem hlaupið fer fram og var metþátttaka, 1334 keppendur hlupu.

Andrea Kolbeinsdóttir sigraði í kvennaflokki fjórða árið í röð á tímanum 1:27:52. Það er sami tími og hún hljóp á í fyrra. Í öðru sæti var Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir            á 1:33:28 og Steinunn Lilja Pétursdóttir þriðja á 1:33:36.

Hlynur Andrésson sigraði í karlaflokki á 1:14:56 og setti brautarmet. Hlynur, sem er fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum, var að keppa í The Puffin Run í fyrsta sinn. Hann er einn besti götuhlaupari landsins. Tveir fyrrum sigurverarar í hlaupinu voru í næstu tveimur sætum. Þorsteinn Roy Jóhannsson, sem sigraði 2021, kom annar í mark á 1:15:56 og sigurverari síðustu þriggja ára, Arnar Pétursson, var þriðji á 1:16:46.

Það var mikil gleðistemmning á þessu fjölmennasta utanvegarhlaupi sem fram hefur farið á Íslandi. Þátttakendur voru mættir með jákvæðni að vopni til að takast á við þessa erfiðu og fallegu leið. Eftir hlaupið söfnuðust þeir saman á Vigtartorg og deildu reynslusögum.

Aðstandendur hlaupsins vilja koma á framfæri þakklæti til allra sem tóku þátt og þeirra fjölmörgu sem störfuðu við hlaupið. Saman gerðum við þennan dag skemmtilegan.